Get in touch

555-555-5555

mymail@mailservice.com

logo

38. þing AN - Ályktun um heilbrigðismál

Ásgrímur Örn Hallgrímsson • 7. október 2024

Ályktun um heilbrigðismál

Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal 3. og 4. október 2024 var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun um heilbrigðismál. 

Ályktun um heilbrigðismál

38. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Hver vill ekki hafa aðgengi að lækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki í sinni heimabyggð? Öflug heilbrigðisþjónusta eru sjálfsögð mannréttindi.

Stjórnvöld hafa lengi talað fyrir hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en þar hafa hljóð og mynd ekki farið saman. Hagræðingartillögur stjórnvalda hafa miðast við að draga úr útgjöldum ríkissjóðs við almenna heilbrigðisþjónustu á kostnað almennings í landinu.

Áhrifin sjást einna best á landsbyggðinni þar sem dregið hefur verið markvisst úr sérfræðiþjónustu og skurðstofum sem og fæðingardeildum lokað og læknaskortur er viðvarandi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Afleiðingarnar eru að sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast langar vegalengdir, oft við erfiðar aðstæður, með óheyrilegum kostnaði og óþægindum. Þetta á ekki síst við um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum þurfa að flytjast búferlum milli landshluta þar sem sérhæfð fæðingaraðstoð er ekki til staðar nema á fáeinum stöðum á landinu. Slík staða er einfaldlega ekki boðleg.

Hagræðing og aukin samþjöppun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni má ekki felast í því að kostnaður sé færður yfir á sjúklinga, aðstandendur og stéttarfélög meðan ríkið losar sig undan ábyrgð. Að mati AN kemur ekkert annað til greina en að bæta úr þessari stöðu, enda markmið laga um heilbrigðisþjónustu að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.

Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað stendur þjóðin frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðismálum. Lífaldur lengist, lýðheilsuvandamál breytast, vaxandi þörf er á öflugri geðheilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og forvörnum. Þá kallar breytt samsetning íbúa með fjölgun innflytjenda og vaxandi ferðamannastraumur á nýja nálgun í þjónustu. Forgangsraða þarf opinberu fé til að tryggja að heilbrigðiskerfið standi undir þessum áskorunum.

38. þing Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að stjórnvöld fylgi eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu og bæti þegar í stað aðgengi allra þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggi þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum, hjúkrunarheimilum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Til dæmis með því að auka verulega rekstrarfé til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðis- og hjúkrunarheimila á Norðurlandi. Auk þess verði greiðsluþátttökukerfið endurskoðað, þar með talið kostnaður sjúklinga og aðstandenda, vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma.

Alþýðusamband Norðurlands er reiðubúið til að koma að þessari vinnu með stjórnvöldum, enda um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir félagsfólk, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.

Eftir Ásgrímur Örn Hallgrímsson 7. október 2024
Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór í síðustu viku var samþykkt samhljóða að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri kr. 500.000 til starfseminnar. Hvatning til sveitarfélaga Sveitarfélögin á Norðurlandi eystra voru um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að efast um mikilvægi starfsemi kvennaathvarfsins og brýna nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þjónustu þess. Starfssvæði Alþýðusamband Norðurlands er Norðurland og er hlutverk þess að vinna að alhliða hagsmunum aðildarfélaga og félagsmanna þeirra. Aðildafélög Alþýðusambands Norðurlands eru eftirtalin ellefu stéttarfélög: Aldan, stéttarfélag Eining-Iðja Byggiðn, Félag byggingamanna Félag málmiðnaðarmanna Akureyri Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni Framsýn, stéttarfélag Samstaða Sjómannafélag Eyjafjarðar Sjómannafélag Ólafsfjarðar Verkalýðsfélag Þórshafnar Þingiðn
Eftir Ásgrímur Örn Hallgrímsson 4. október 2024
82 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 38. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal 3. og 4. október 2024. Á þinginu var samþykkt ályktun um heilbrigðismál og einnig var samþykkt að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri kr. 500.000 til starfseminnar og voru sveitarfélögin á Norðurlandi Eystra um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að efast um mikilvægi starfsemi kvennaathvarfsins og brýna nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þjónustu þess. Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með fjölbreytt erindi. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktor í Félagsfræði við UNAK, var með fyrirlestur sem bar nafnið Slúður sem félagslegt vald og stjórnun. Steinunn Stefánsdóttir, frá Starfsleikni ehf., var með erindið Að setja mörk. Jón Gunnar Þórðarson, frá Bara Tala ehf., var með erindið Íslenska annað tungumál, bara tala. Róbert Farestveit, Sviðsstjóri Hagfræði- og greiningasviðs ASÍ, fór yfir stöðuna í samfélaginu núna haustið 2024. Í lok fyrr dags flutti Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, mjög gott erindi um verkalýðshreyfinguna í heild sinni og samspil verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og sveitarfélaga. Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, hóf seinni daginn þegar fjallað var um ókeypis námskeið fyrir félagsmenn hjá Símenntunarmiðstöðvunum á svæðinu. Björn Snæbjörnsson, formaður kjaranefndar félags eldri borgara á Íslandi, var næstur í pontu með erindið Er líf eftir vinnumarkaðinn, hvað tekur við? Síðasti erindið á þinginu flutti Atli Einarsson, framkvæmdastjóri Vilko ehf., en það bar nafnið Við viljum Vilko! - landslag matvælaframleiðenda á landsbyggðinni Áður en kosningar fóru fram var farið yfir og samþykktir ársreikningar AN fyrir árin 2022 og 2023 og fjárhagsáætlun fyrir árin 2024 og 2025. Ný stjórn AN Tillaga kjörnefndar um nýja stjórn Alþýðusambands Norðurlands árin 2024-2026 var samþykkt samhljóða. Ósk Helgadóttir, frá Framsýn, var kjörin nýr formaður AN til næstu tveggja ára. Með henni í stjórn eru Jóhannes Jakobsson, frá Byggiðn, sem er varaformaður stjórnar, og Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, sem er ritari stjórnar. Varamenn í stjórn eru, Aneta Potrykus, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Atli Hjartarsson, frá Öldunni stéttarfélagi, og Eydís Bjarnadóttir, frá FVSA. Einnig voru kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára; Rósfríð Kristín Áslaugsdóttir, frá Einingu-Iðju, og Stefanía Árdís Árnadóttir, frá FVSA. Arna Dröfn Björnsdóttir, frá Öldunni stéttarfélagi, var kjörin varamaður þeirra.
Fleiri færslur
Share by: