Get in touch

555-555-5555

mymail@mailservice.com

logo

35. þing Alþýðusambands Norðurlands

28. október 2017

Tæplega 90 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 35. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal dagana 29. og 30. september 2017. Þingið tókst í alla staði mjög vel. Skipað var í fjóra vinnuhópa þar sem fjallað var um vinnumarkaðsmál, menntamál, jafnréttismál og velferðarmál. Fjórar ályktanir voru samþykktar samhljóða á þinginu og má lesa þær hér fyrir neðan.


Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með erindi. Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, fjallaði um vinnumarkaðinn í fortíð, nútið og framtíð og um fækkun starfa og menntaþörf. Andri Már Helgason, frá Advania, fjallaði um raunheima tækninnar. Valgeir Magnússon, framkæmdastjóri SÍMEY, fjallaði um mikilvægi menntunar á vinnumarkaði. Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, fjallaði um hlutverk og gildi kjarasamninga á breyttum vinnumarkaði. Tryggvi Hallgrímsson, frá Jafnréttisstofu, fjallaði um kvennastörf og karlastörf og velti fyrir sér spurningunni er jafnrétti til staðar á vinnumarkaði í dag. Fjórir ungir Þingeyskir og Eyfirskir þingfulltrúar ræddu um framtíðarsýn ungs fólks til stéttarfélaga. Að lokum flutti Hákon Hákonarson, fyrrum formaður FMA, stutta samantekt um sögu Alþýðusambands Norðurlands, en sambandið varð 70 ára fyrr á árinu.



Nýr formaður AN var kosinn Bóas Jónasson, frá Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri. Með honum í stjórn eru Ósk Helgadóttir, frá Framsýn – stéttarfélagi, og Vigdís Þorgeirsdóttir frá Samstöðu. Varamenn í stjórn eru Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, Sigríður Jóhannesdóttir, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, og Bjarki Tryggvason, frá Öldunni – stéttarfélagi

 

Ályktun um jafnréttismál

35.þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir áhyggjum yfir hægfara þróun í jafnréttismálum. Alþýðusamband Norðurlands telur brýna þörf á eftirfarandi aðgerðum:

  • Lögum um jafnlaunavottun í fyrirtækjum verði framfylgt
  • Störf verði metin til jafns óháð kyni
  • Markvisst átak verði sett af stað til að stuðla að hugarfarsbreytingu hjá báðum kynjum, m.a. með fræðslu og kynningarefni
  • Stórtækt átak verði gert í dagvistunarmálum

 

Ályktun um menntamál

35. þing Alþýðusambands Norðurlands ályktar að allir skuli eiga jafnan rétt til náms. Menntun við hæfi allra skuli vera gjaldfrjáls. Aukið fjármagn verði sett í málaflokkinn. Þing AN telur:

  • Að koma þurfi í veg fyrir íþyngjandi kostnað við öflun menntunar t.d. vegna búsetu.
  • Að ákveðnir hópar glími við óviðunandi valkosti í samgöngum og fjarskiptum sem komi í veg fyrir öflun menntunar.
  • Að auka þurfi fjölbreytni í námsframboði í heimabyggð og leggja aukna áherslu á sköpun og rökhugsun.
  • Að tryggja þurfi að fólk geti snúið aftur til náms á fullorðinsárum.
  • Að efla þurfi símenntunarstöðvar og auka möguleika á fjarnámi.
  • Að greina þurfi menntunar- og færniþörf á vinnumarkaði til framtíðar og að menntun taki mið af því.

 

Ályktun um vinnumarkaðsmál

  • Að tryggja stöðugleika er grundvöllur fyrir auknum kaupmætti.
  • Að taka húsnæðiskostnað út úr neysluvísitölu.
  • Að sýna samstöðu allra samtaka launafólks í landinu.
  • Að endurskoða starfsreglur og lög sem gilda um kjararáð.

 

Ályktun um velferðarmál

35. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu velferðarmála í fjórðungnum. Aukin fátækt og vaxandi misskipting leiðir af sér slæmt samfélag sem brýtur í bága við grunngildi norræns velferðarsamfélags. Þingið krefst eftirfarandi aðgerða í baráttunni fyrir betri velferð og bættu samfélagi:

  • Góð heilbrigðisþjónusta á Norðurlandi fyrir alla óháð búsetu og efnahag.
  • Heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og öllum aðgengileg.
  • Bæta þarf verulega geðheilbrigðisþjónustu og stuðning við aðstandendur langveikra.
  • Sveitarfélög í fjórðungnum beiti sér fyrir því að greiða götu almennra leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, til að auka aðgang allra að mannsæmandi íbúðarhúsnæði. Húsnæði er mannréttindi ekki forréttindi!
  • Tekjutengingar í lífeyriskerfinu verði afnumdar.

Eftir Ásgrímur Örn Hallgrímsson 7. október 2024
Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór í síðustu viku var samþykkt samhljóða að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri kr. 500.000 til starfseminnar. Hvatning til sveitarfélaga Sveitarfélögin á Norðurlandi eystra voru um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að efast um mikilvægi starfsemi kvennaathvarfsins og brýna nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þjónustu þess. Starfssvæði Alþýðusamband Norðurlands er Norðurland og er hlutverk þess að vinna að alhliða hagsmunum aðildarfélaga og félagsmanna þeirra. Aðildafélög Alþýðusambands Norðurlands eru eftirtalin ellefu stéttarfélög: Aldan, stéttarfélag Eining-Iðja Byggiðn, Félag byggingamanna Félag málmiðnaðarmanna Akureyri Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni Framsýn, stéttarfélag Samstaða Sjómannafélag Eyjafjarðar Sjómannafélag Ólafsfjarðar Verkalýðsfélag Þórshafnar Þingiðn
Eftir Ásgrímur Örn Hallgrímsson 7. október 2024
Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal 3. og 4. október 2024 var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun um heilbrigðismál. Ályktun um heilbrigðismál 38. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Hver vill ekki hafa aðgengi að lækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki í sinni heimabyggð? Öflug heilbrigðisþjónusta eru sjálfsögð mannréttindi. Stjórnvöld hafa lengi talað fyrir hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en þar hafa hljóð og mynd ekki farið saman. Hagræðingartillögur stjórnvalda hafa miðast við að draga úr útgjöldum ríkissjóðs við almenna heilbrigðisþjónustu á kostnað almennings í landinu. Áhrifin sjást einna best á landsbyggðinni þar sem dregið hefur verið markvisst úr sérfræðiþjónustu og skurðstofum sem og fæðingardeildum lokað og læknaskortur er viðvarandi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Afleiðingarnar eru að sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast langar vegalengdir, oft við erfiðar aðstæður, með óheyrilegum kostnaði og óþægindum. Þetta á ekki síst við um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum þurfa að flytjast búferlum milli landshluta þar sem sérhæfð fæðingaraðstoð er ekki til staðar nema á fáeinum stöðum á landinu. Slík staða er einfaldlega ekki boðleg. Hagræðing og aukin samþjöppun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni má ekki felast í því að kostnaður sé færður yfir á sjúklinga, aðstandendur og stéttarfélög meðan ríkið losar sig undan ábyrgð. Að mati AN kemur ekkert annað til greina en að bæta úr þessari stöðu, enda markmið laga um heilbrigðisþjónustu að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað stendur þjóðin frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðismálum. Lífaldur lengist, lýðheilsuvandamál breytast, vaxandi þörf er á öflugri geðheilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og forvörnum. Þá kallar breytt samsetning íbúa með fjölgun innflytjenda og vaxandi ferðamannastraumur á nýja nálgun í þjónustu. Forgangsraða þarf opinberu fé til að tryggja að heilbrigðiskerfið standi undir þessum áskorunum. 38. þing Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að stjórnvöld fylgi eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu og bæti þegar í stað aðgengi allra þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggi þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum, hjúkrunarheimilum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Til dæmis með því að auka verulega rekstrarfé til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðis- og hjúkrunarheimila á Norðurlandi. Auk þess verði greiðsluþátttökukerfið endurskoðað, þar með talið kostnaður sjúklinga og aðstandenda, vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma. Alþýðusamband Norðurlands er reiðubúið til að koma að þessari vinnu með stjórnvöldum, enda um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir félagsfólk, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.
Fleiri færslur
Share by: